Skip to Content

Um vanhæfni til mannlegra samskipta

Það má segja að þetta verk sé um einsemd okkar og ótta við hamingjuna, segir Jenný Lára Arnórsdóttir um leikritið Blik sem frumsýnt verður í Gamla bíói næstkomandi sunnudagskvöld. Verkið er eftir breska leikskáldið Phil Porter og heitir á frummálinu Blink. Það var frumsýnt á Edinborgarhátíðinni 2012 og hefur síðan verið sýnt við miklar vinsældir í Soho leikhúsinu í London.

„Verkið lýsir vanhæfni manneskjunnar til að eiga í samskiptum nú til dags,“ heldur Jenný áfram, „og þessi vanhæfni er stöðugt að ágerast. Það er til ógrynni af vefmiðlum, eins og Facebook, þar sem við höldum að við séum í samskiptum, en erum það í rauninni ekki. Það má meira að segja halda því fram að slíkir vefmiðlar séu aðeins birtingarmyndin á því hvað við erum ótrúlega einmana.

Í Bliki sjáum við tvær mjög sérkennilegar manneskjur, Sophie og Jonah, sem eru svo einangraðar og einmana að þær eru til í að leggja töluvert á sig til ná sambandi við aðra mannskju. Þau verða á vegi hvort annars og þrá að aðlagast hvort öðru. Þau eru bæði mjög „dysfúnksjónal“ ef svo má að orði komast, en eiga vissa þætti sameiginlega. Þau reyna að einblína á þá veiku þræði sem þau eiga sameiginlega og gangast inn á þá félagslegu fötlun sem hvort um sig burðast með. Jafnvel þótt það henti þeim ekki.

Þetta verk sýnir mjög skýrt félagslega stöðu manneskjunnar í dag. Við erum einmana og einangruð. Oft erum við til í að ganga langt til að rjúfa þessa einangrum.“

Þegar Jenný er spurð hvers vegna við séum svona einmana og einangruð, segir hún marga þætti spila þar inn í. „Að einhverju leyti er tækninni um að kenna. Ég nefni aftur Facebook, þar sem við höldum að við séum að eiga samskipti en erum í rauninni bara ein heima hjá okkur að reyna að ná sambandi við lifandi fólk. Í dag eigum við líka svo mikið val að við verðum hálf ringluð. Afleiðingin er sú að við erum hrædd við að taka ákvarðanir. Við viljum fyrst og fremst vera örugg og hvað eigum við að velja til að tryggja varanlegt öryggi? Er það hægt? Það er eins og við höfum tilhneigingu til að hjakka bara áfram í því sem við þekkjum í stað þess að kynnast nýjum flötum á lífinu, prófa eitthvað nýtt og reyna að finna lausnir á ögrunum sem mæta okkur. Það er svo miklu auðveldara að hlaupa til baka á staðinn sem við þekkjum og halda bara áfram að vera mjög einmana.

Vandamálið er bara að við erum félagsverur og þurfum félagsskap og það er það sem Sophie og Jonah í Bliki eru að fatta. En vegna þess hversu félagslega vanhæf þau eru, grípa þau til örþrifaráða. Hvort það dugar þeim, kemur svo bara í ljós.“
Jenný útskifaðist frá leiklistarskólanum ASAD (The Academy of the Science of Acting and Directing) í London sumarið 2012, eftir fjögurra ára nám. Námið er afar stíft, fjórar annir á ári, engin sumarfrí, aðeins tveggja vikna frí á milli anna. „ASAD er ekki alhliða listaskóli. Þar er aðeins kennd leiklist og leikstjórn. Og ekki bara það sem fer fram á sviðinu, heldur allar tæknihliðar og annað sem viðkemur því að setja upp leiksýningu. Þegar við útskrifumst verðum við að kunna vel til allra verka sem þarf að vinna við uppsetningu á leiksýningu. Við þurfum sjálf að geta hannað lýsingu- og hljóðmynd, verðum sjálf að geta búið til búninga og leikmynd o.s.frv. Við fáum líka stranga þjálfun í að reka leikhús þar sem það á fyrir flestum að liggja að þurfa að reka sína eigin leikhópa fyrst eftir útskrift.
ASAD einbeitir sér að natúralískri nálgun, byggðri á Stanislavsky, einum mesta áhrifamanni í leiklist á síðari öldum. Skólinn er mjög harður og þetta var eins og að vera í leiklistar-„bootcamp“ í fjögur ár. Maður var stöðugt að vinna í ótal verkefnum, leika hjá öðrum leikstjórnarnemum og leikstýra sínum eigin verkum. Það var gert á kvöldin og um helgar. Á daginn vorum við í skólanum, frá 8-5. Allir dagar byrja á jógatíma og svo tekur eitt við af öðru. Þetta er gríðarleg þjálfun og maður lærir svo sannarlega hvers maður er megnugur. Vinna að óal verkefnum og gera allt vel, sofa fjóra tíma á nóttu í fjögur ár, grípa sér eitthvað að borða á hlaupunum – og ekkert væl! Og eina mannsekjan sem maður getur treyst á, er maður sjálfur. Það getur enginn gert neitt af þessu fyrir mann, það er hvergi hægt að stytta sér leið. Allt er undir manni sjálfum komið. Eftir þessi fjögur ár, veit maður líka að maður getur gert allt sem maður einsetur sér að gera.“

Þegar Jenný er spurð hvers vegna hún hafi ekki valið sér léttari skóla, verður hún eiginlega undrandi og svarar: „Vegna þess að ég var svo heppin að komast inn í þennan skóla. Leiklistarskólar eru aldrei léttir en þessi skóli býður upp á þjálfun í nánast öllu sem kunna þarf í leikhúsi, ekki bara leiklist og leikstjórn. Það hentaði mér mjög vel. Og þótt hann sé mjög harður, verð ég að segja eins og er að mér fannst þetta aldrei erfitt, bara endalaust gaman. Mér fannst svo gaman að geta endalaust eytt öllum mínum tíma í það sem mér finnst skemmtilegast af öllu – leiklistina – og þurfa ekki að gera neitt annað.

Það spilaði líka inn í val mitt, að ASAD var með inntökupróf í Stokkhólmi á nákvæmlega þeim tímapunkti sem ég VISSI að ég yrði að komast í leiklistarnám. Ég skráði mig í inntökuprófið, flaug út með nánast engum fyrirvara, fór í inntökuprófið – og komst inn. Það small allt saman. Það var virkilega þess virði að taka áhættuna, prófa eitthvað nýtt, takast á við ögrunina – í stað þess að skríða í gamla skjólið sitt.“