Skip to Content

Viðtal við Ófeig Sigurðsson rithöfund um tildrög þess að hann ákvað að gerast rithöfundur.

Að ákveða að gerast rithöfundur og skrifa bókmenntir

Að taka þá meðvituðu ákvörðun sem ungur maður að verða rithöfundur er óneitanlega nokkuð stór og að sumu leyti áhættusöm ákvörðun.  Annars vegar er það gjarnan í augum samfélagsins yfirlýsing um að maður hafi skipað sér sjálfur í hóp þeirra sem ætla að bera uppi nýsköpun stórbrotinnar sagnahefðar sem á rætur í fornsögunum og afkastamiklum rithöfundum eins og Halldóri Laxness og Gunnari Gunnarssyni, og hins vegar ákvörðun um að hokra við skriftir í nokkur ár til að standa undir yfirlýsingunni.  Sitja við tölvuna í áhyggjuhlaðinni einsemd og skapa list og menningarverðmæti í þeirri von að einhver fái áhuga á verkinu. Allt dálítið bratt og erfitt.  Ákvörðun sem líklega færa bæði ættingja og vini til að lyfta brúnum með þá spurningu alvega fremst á vörunum hvort þú ætlir þá ekki að hafa neinar tekjur?  Hvernig þú ætlir að lifa? En eins og margt annað í lífinu krefst slík ákvörðun hugrekkis og staðfastrar sannfæringar um eigin getu.  Og einmitt þannig var ákvörðun Ófeigs Sigurðssonar frænda okkar hér í Færseth fjölskyldunni sem þegar hefur gefið út nokkrar ljóðabækur og tvær skáldsögur.  Og núna í haust kemur út ný skáldsaga eftir Ófeig.

Fyrir nokkrum dögum hitti ég Ófeig á Kaffitár í Borgartúni. Í leit okkar umsjónarfólks vefsíðunnar að meðlimum í fjölskyldunni sem er að gera skemmtilega og óvenjulega hluti, hlaut fljótlega að koma að Ófeigi.  Við settumst niður í rúman klukkutíma en höfðum aðeins hist einu sinni áður, í jarðarför ömmu hans, Þóru Lilju Klein, fyrir rúmlega ári síðan.

Þegar menn finna fyrir nærveru listagyðjunnar

Það skemmtilega við þá ákvörðun Ófeigs að gerast rithöfundur var einmitt sú staðreynd að ákvörðunin var meðvituð og markviss.  Á sínum yngri árum hafði hann greinilega fundið fyrir nærveru listagyðjunnar og ákvað þess vegna að fara í myndlistanám eftir stúdentspróf.   Hélt til Danmerkur til að nema myndlist.  En fljótlega kom í ljós að myndlistin var ekki nákvæmlega það listform honum var ætlað að glíma við og tók hann þá ákvörðun að hætta í því námi.  Hann var þannig kominn í þá óþægilegu stöðu að losna ekki við nærveru listagyðjunnar en jafnframt að vera ekki alveg klár á forminu sem hún var að beina honum að.  Þar sem hann var í staddur í Kaupmannahöfn ákvað hann að setjast inn á Landsbókasafnið og lesa allar þær íslensku skáldsögur sem þar mátti finna.  Enda hafði lagst að honum sá grunur að listagyðjan væri að beina honum að ritlistinni.

Vopnaður nýrri þekkingu eftir allan lesturinn og hlaðinn innblæstri frá öllum þeim fjölmörgu höfundum sem hann hitti fyrir á Landsbókasafninu í Kaupmannhöfn hóf hann að skrifa ljóð.  Hann segir mér að hann hafi mannað sig upp í að senda Tímariti Máls og Menningar eitt ljóð hálfpartinn í rælni en hafi fengið þau ánægjulegu viðbrögð að ljóðið myndi birtast í næsta hefti.  Þetta var eðlilega ákaflega uppörvandi. Þegar hann kom aftur heim til Íslands hóf hann nám í íslenskum fræðum enda tungumálið hugleikið öllum þeim sem vilja setjast við skrifir.  Eftir eitt ár í þeim fræðum ákvað Ófeigur hins vegar að snúa sér að heimspeki.  Því námi lauk hann með BA-prófi frá Háskóla Íslands árið 2007.

Skál fyrir skammdeginu og Jón

Fyrsta ljóðabókin, Skál fyrir skammdeginu, kom út árið 2001 og „vakti athygli ekki síst fyrir þá myrku sýn sem þar birtist“ eins og segir á vefsíðunni  sagenhaftes-island.is.  Tveim árum síðar kom ljóðabókin Handlöngun út hjá Nýhil.  Það var svo árið 2005 sem fyrsta skáldsagan Áferð kom út.  En skáldsagan „heillaði gagnrýnendur upp úr skónum“ og gaf Ófeigi eðlilega tilefni til að fyllast eldmóð og tiltrú á því hlutskipti sem hann hafði valið sér.  Eftir það hefur hann sent frá sér nokkrar ljóðabækur.  Sú frumlegasta var líklega vatnshelda buslubókin Biscayne Blvd sem vegur heil tvö kíló er bundin í sílikon og er tileikuð Geirlaugi Magnússyni skáldi sem dreymdi um að „búa til vatnshelda buslu-Heimskringlu handa Snorra í lauginni“.

Árið 2010 kom út skáldsagan Jón sem fjallar um séra Jón Steingrímsson eldklerk.  Ófeigur segist hafa heillast mjög af Jóni þegar hann las sjálfsævisögu hans.  Áhuginn á Jóni vaknaði eftir að hann fór með mági sínum sem er fornleifafræðingur  til að skoða hellinn þar sem Jón dvaldist vetrarlangt árið 1755. Um skáldsöguna segir á vefsíðu Forlagsins:

Haustið 1755 fer Jón úr Skagafirði suður í Mýrdal. Hann liggur undir grun um að hafa myrt fyrri eiginmann Þórunnar konu sinnar og hefur hrakist úr starfi við Reynistaðarklaustur. En Suðurland er ekki fýsilegt til búsetu: Katla gýs eldi og eimyrju, Mýrdalurinn er hulinn ösku og rógurinn fylgir Jóni hvert sem hann fer. Hann sest að í helli við Reynisfjöru ásamt bróður sínum og vinnumanni og undirbýr komu konu sinnar suður. Í hellinum þarf Jón að takast á við sína innri djöfla, vonleysi og ótta með því að tengja sig við ástina, Guð og endurreisn Íslands. Jarðabætur og bréfaskriftir hans til Þórunnar eru honum lífsbjörg og sálarhreinsun.

Bókin um Jón Steingrímsson og vistina í hellinum er í alla staði ákaflega skemmtileg og tekst Ófeigi vel uppi í þeim ásetningi að lýsa bæði persónu Jóns og þeim skuggalegu aðstæðum sem hann býr við í hellinum.  Þegar ég las bókina taldi ég víst að Ófeigur hefði fengið í hendurnar fjölmörg bréf sem Jón hefði raunverulega skrifað. Einhvernvegin voru hugrenningar Jóns eldklerks í bókinni svo raunverulegar og allt svo vel unnið.  Á köflum var ég meira að segja að velta fyrir mér hvar skáldsagnaþátturinn væri þar sem þetta virtist allt skrifað skilmerkilega af Jóni sjálfum.  Það kom mér þess vegna þægilega á óvart þegar Ófeigur sagði mér að engin bréf væru til frá Jóni frá tímanum í hellinum.  Hann hefði skrifað margt á sinni viðburðaríku ævi en aldrei neitt um vistina í hellinum.  Þá rann upp fyrir mér að þessu var öllu öfugt farið.  Bréfin voru öll hreinn skálskapur en svo raunveruleg að ég taldi víst allan tíman á meðan ég las bókina að Jón hefði skrifað þetta sjálfur.  Á því augnbliki áttaði ég mig á því að Ófeigur var alveg á réttri hillu í lífinu. Og nú situr hann við skriftir og er að klára næstu skáldsögu sem kemur út í haust.

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins

Á bókasýningunni í Frankfurt í október á síðast ári þar sem íslenskar bókmenntir voru í heiðurssæti var tilkynnt að Ófeigur hafi hlotið bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins.  Verðlaunin voru veitt 12 evrópskum höfundum. Okkur má þess vegna vera ljóst að ferill Ófeigs á braut listsköpunar þokast áfram hægt og bítandi í hárétta átt.  Hann stendur fyllilega undir þeirri ákvörðun að gerast rithöfundur og skrifa bókmenntir. Það verður þess vegna spennandi fyrir okkur í fjölskyldunni að fylgjast með Ófeigi á næstu misserum og árum og áhugavert að lesa skáldsöguna sem kemur út í haust.  Með skáldsögunni um Jón, þeim góðu dómum og viðurkenningum sem bækur Ófeigs hafa fengið getum við átt von á að Ófeigur skipi sér í fremstu röð íslenskra rithöfunda og muni sannarlega standa undir þeirri ákvörðun sinni að gerast rithöfundur.

Og á heimili Ófeigs eru fleiri rithöfundar því að sambýliskona hans er Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur.  M.a. hefur Oddný skrifað bækurnar Heim til míns hjarta: ilmskýrsla 2009 og Jarðnæði 2011. Bæði eru þau Ófeigur og Oddný höfundar sem beina kröftum sínum að nýsköpun bókmennta og fara að ýmsu leyti frumlegar leiðir í sinni áhugaverðu listsköpun.

Við ættum þess vegna öll að fylgjast af eftirvæntingu með framvindunni hjá Ófeigi og Oddnýju og vera vel vakandi yfir þeim bókum sem þau senda frá sér á næstunni.  

Viðtal við Ófeig í tilefni af afhendingu Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins

 

Einar Páll Svavarsson