Skip to Content

Þrjátíu og þriggja ára ólétt ellefu barna útivinnandi húsmóðir í tveggja herbergja íbúð

Stundum þegar umræðan berst að kreppu, eða Kreppunni, verður mér óhjákvæmilega hugsað til tveggja einstaklinga sem áttu þátt í að leggja grunninn tilveru okkar í Færseth fjölskyldunni, ömmu og afa, þeirra Pálínu Færseth og Einars Færseth. Hjón sem lifðu af ramma kreppu þrátt fyrir stóra fjölskyldu og erfiða afkomu. Kreppu þar sem ríkti skortur á vinnu, mat, lífsgæðum og möguleikum. Kreppu sem var rammari eða að minnsta kosti allt öðruvísi en kreppan í dag.

Margir í okkar fjölskyldu af yngri kynslóðinni kynntust þeim eðlilega aldrei og hafa jafnvel aldrei heyrt neitt um þessi merku hjón. Þau eru hluti af einhverri djúpri fortíð og lífi sem í huga yngri kynslóðarinnar er löngu horfið. Þau eru hins vegar furðulega stutt frá okkur í tíma þegar litið er til þess að nokkur af börnum þeirra eru ennþá á líf. Að sumu leyti finn ég til nokkurrar skyldu að segja frá þeim þar sem ég var sem barn nefndur í höfuðið á þeim báðum, og hef eðlilega allar götur síðan borið nöfn þeirra beggja. Einar frá afa og Páll frá ömmu Pálínu. Að auki tók ég saman erindi sem ég flutti þegar við afkomendur þeirra Pálínu og Einars komum saman í október árið 1991.

Hver voru þau Pálína og Einar Færseth?

Því miður átti ég sjálfur aldrei þess kost að hitta Einar afa þar sem hann lést rúmlega tveim mánuðum áður en ég fæddist. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir að ég kynntist honum gengum frásagnir þeirra sem þekktu hann í lifanda lífi, fólki sem hafði hitt hann og kynnst honum í lífi og starfi. Og svo auðvitað líka frá foreldrum mínum og ömmu Pálu sem ég umgekkst mikið sem barn og unglingur. Upp úr þessum frásögnum byggði ég snemma ákveðna mynd af Einari afa. Mynd sem að meira eða minna leyti hefur haldist óbreytt gegnum árin, og hefur á stundum verið mér nokkur ráðgáta. Sérstaklega varð hún ráðgáta þegar ég tók að fullorðnast og heyrði sitthvað um skapsbresti hans og ofsagang þegar hann var í slagtogi með Bakkusi.

Ömmu kynntist ég hins vegar vel, enda bjó hún a Vatnsnesveginum i Keflavík þegar ég var að alast upp og lést þegar ég var orðinn fullorðinn. Á þessum árum kom ég oft til hennar, og að sjálfsögðu hún heim til mín og foreldra minna. Þá var amma orðin nokkuð fullorðin og kom mér fyrir sjónir sem gömul dálítið bitur kona sem reykti mikið. Hún var hins vega barngóð og kunni sannarlega lag á börnum og hafði ánægju af návist þeirra.

Ég held að ég geti sagt með nokkurri vissu, að hvorugt þeirra hefði óskað þess að einhvern tíma ætti einhver eftir að skrifa um þau væmna eða óraunsæja lofgerðarrullu. Kasta yfir ævi þeirra fögrum fortíðarljóma. Slíkt væri í algjöru ósamræmi við persónur þeirra og lífsgöngu. Hvort ég geti svo glatt fullyrt þetta fyrir afa skal ósagt látið, hins vegar velkist ég ekki í neinum vafa um að þetta var afstaða ömmu. Til þess var hún, og líklega þau bæði , alltof raunsæ og heiðarleg gagnvart sjalfum sér. Og löng og afar ströng lífsbarátta skildi eftir litið svigrum fyrir hræsni og yfirdrepskap.

Einar Andreas Olsen Færseth

Í mínum huga var Einar afi stórbrotinn persónuleiki sem hafði áhuga a fornbókmenntum, stjórnmálum og verkalýðsbaráttu. Harðgerður maður sem einatt var hugsi og þungur á brún. Þannig horfir hann að minnst kosti til okkar af gömlum ljósmyndum og þannig er minning föður míns frá sínum uppvaxtarárum. Augnaráðið virðist torráðið og alt að því dularfullt. Enda var hann sérlundaður maður, einþykkur, og að því er virðist, sjalfum sér nógur um flesta hluti. Hann var fámall alþýðumaður, gallharður kommúnisti, og að sama skapi trúlaus mestan part ævinnar. En hann var líka maður sem hafði þörf fyrir að standa vörð um stöðu sína sem húsbóndi a heimilinu. Og ef hann fékk ekki sínu fram gat hann sýnt svo um munaði hvað í honum bjó, ekki hvað síst ef hann hafði neytt áfengis. En áfengisvandi var greinilega eitt af þeim vandamálum sem hann átti við að stríða á fyrri hluta ævinnar. Vandamál sem setti mark á fjölskylduna með sama hætti og slíkur vandi gerir enn í dag. Hann var þar að auki ótrúlega strangur heimilisfaðir, að minnsta kosti á mælikvarða okkar sem þykjumst vera stoltir yfir því að vera af mjúku kynslóðinni. Hins vegar var hann, eins og við öll, barn síns tíma.

Einar Andreas Olsen Færseth, eins og hann heitir á leyfisbréfi sem embættismenn Kristjáns tíunda gáfu út þegar hann kvæntist ömmu, fæddist 15. janúar árið 1890 á eynni Vega rétt norðan við miðbik Noregs. En Vega liggur, rétt eins og Siglufjörður, við 66. gráðu norðlægrar breiddar. Foreldrar hans voru þau Ole Johnsen sjómaður, einnig frá Vega og Elen Lorentsen frá Klinga, sem er lítið þorp sunnar en Vega. Einar afi átti einn bróðir, Óskar, og þrjár systur, Ingu Hansínu, Jóhönnu Soffíu og Öllu Elísabet. Um ættir Elenu móður Einars afa er lítið vitað. Hins vegar vitum við að föðurafi hans hét John Olsen, sænskur maður sem lést langt um aldur fram, og að föðuramma hans var Hanna Paulsdóttir. Hanna var, eins og segir orðrétt í norskum kirkjubókum „datter av gift mann Paul Hovde og pike Abel Knudsdatter Kjul." Eða með öðrum orðum, lausaleggskrói Abel Knudsdatter sem hún atti með kvæntum manni, Paul Hovde. En það er einmitt Abel Knudsdatter, langamma Einars afa, sem síðar kynnist, giftist og bjó með Erik Dinessen. En Erik þessi tók a sinum tíma við jörðinni Færseth, og bjuggu þau þar til æviloka. Og þaðan er Færseth ættarnafnið komið. Frá gamalli jörð a eynni Vega, sem fyrr á öldum hét Ferseth, en breyttist í aldanna rás í Færseth. Þegar svo John Olsen föðurafi Einars afa lést, bjó Hanna amma hans áfram hjá móður sinni Abel og fósturföður, Erik Dinesen ásamt syninum Ole Johnsen, föður Einars, sem síðar tók við búskap a jörðinni.

Á þeim tíma sem Einar afi var að alast upp bjó fólkið á Vega við ágæt náttúruleg skilyrði og hafði stundaði sjósókn og landbúnað jafnhliða gegnum aldirnar. Auðvitað skiptust a skin og skúrir, hallæri, plágur og farsóttir, eins og hér á landi og víða um Evrópu. Við aldamótin 1900 þegar afi er að komast á legg var þarna ágæt velmegun á þeirra tíma mælikvarða og félagsleg samhjálp og menningar-og menntamál í miklum blóma. En þrátt fyrir þessi góðu skilyrði hleypti Einar afi snemma heimdraganum, enda má ætla að hugur hans hafi snemma hneigst til sjómennsku fremur en landbúnaðarstarfa. Líkleg hefur hann hafið sjósókn snemma sem strákur eins og títt var um Norðmenn, og er vitað með nokkurri vissu að hingað til lands kom hann fyrst árið 1907 eða 1908, og var við síldveiðar.

Um ferðir hans næstu árin er lítið vitað annað en að ljóst er að hann stundaði sjómennsku hér við land og við Noreg. Hitt vitum við að á Siglufirði hittir hann ömmu og hefur að minnsta kosti átt með henni einn fund um mitt ár 1915, ef þeir hafa ekki verið fleiri. Þá er hún 17 ára en hann 25 ára. Níu mánuðum síðar fæðist svo frumburðurinn, Björgvin, og er amma þá enn í föðurhúsum. Einar afi var hins vegar hvergi sjáanlegur og hafði farið aftur til Noregs og var þar fram eftir ári 1916. Þar hefur hann eflaust fylgst af athygli og ánægju með aðdraganda mála í Rússlandi þar sem mennirnir hans, Lenín og félagarnir í bolsévikaarmi rússneska kommúnistaflokksins, gerðu byltingu síðari hluta árs 1917. Á þeim tíma fær hann hins vegar kvaðningu um að koma í norska herinn, enda fyrri heimstyrjöldin í fullum gangi og búin að standa yfir í tvö ár. Ekkert lát virðist á bardögum og hörmungum. Einar afi hefur hins vegar ekki áhuga á að gerast hermaður og bregður á það ráð að stinga af til Íslands. Laumar sér með íslenskum báti úr landi með aðstoð skipstjórans sem var sonur Bjarna Þorsteinssonar prests og andlegs leiðtoga Siglfirðinga til margra áratuga. Hann fer ekki aftur til Noregs fyrr en 1954, ef undan er skilin ferð með íslenskum línuveiðara á miðin við Lófóten í kringum 1920. Íslenskur ríkisborgari gerist hann árið 1920.

Ágústa Pálína Sæby Færseth

Amma Pála, eða Ágústa Pálína Sæby, fæddist a Siglufirði ágúst 1897, dóttir hjónanna Andreas Christian Sæby og Kristínar Stefánsdóttur. Hún var næst yngst i hópi átta systkina, en þar að auki áttu foreldrar hennar báðir tvö börn áður en þau gengu í hjónaband. Sæby faðir ömmu var danskur maður, beykir að atvinnu, og eins og segir í bókinni "Brauðstrit og barátta, úr sögu byggðar og verkalýðshreyfingar a Siglufirði" þá var Sæby "helsti beykir Siglufjarðar meðan hann lifði, og var vel metinn borgari og traustur kunnáttumaður í iðn sinni." Sæby hafði komið til Siglufjarðar árið 1870 og keypti þá lóð á Eyrinni þar sem hann byggði lítið hús. Það hús er í dag friðað og hefur verið endurbyggt og gengur að sjálfsögðu undir nafninu Sæbyhúsið. Móðir hennar Kristín var ættuð úr Fljótunum og frá Ólafsfirði þar sem Færseth fjölskyldan á fjarskylda ættingja, rétt eins og á eynni Vega i Noregi.

Sagan segir að Sæby gamli hafi verið ákaflega hrifinn af Pálínu yngstu dóttur sinni. Hún var fjörug, lífsglöð og glæsileg ung kona. Og þess vegna var ekki skrítið að honum hafi brugðið í brún þegar í ljós kom upp úr miðju ári 1915 að litla dóttir hans var ófrísk og að barnsfaðir hennar var norski sjómaðurinn Einar Færseth. Hvort hér lá að baki eðlislæg umhyggja föður gagnvart dóttur sem allt í einu er orðin fullorðin eða hvort afi Einar hafi þegar á þeim tíma kynnt Siglfirðingum óvenju hávaðasamar og fyrirferðamiklar drykkjuvenjur sínar skal ósagt látið.  En hitt virðist ljóst af öllum frásögnum að hann átti ekki sérstaklega upp á pallborðið hjá Sæby gamla. Ef til vill hefur Sæby reynt að hafa áhrif á og draga úr áhuga ömmu á norska sjómanninum Einari Færseth eftir að frumburðurinn fæddist, en eins og allir vita, þá er ástin hömlulaus tilfinning, og Pálína var ákveðin og viljasterk kona, og rúmlega ári eftir að frumburðurinn fæddist eignast þau sitt annað barn, Óla Jóhann og ganga í hjónaband í lok ársins og hefja búskap í litilli risíbúð. Björgvin varð eftir i afahúsi þar sem hann ólst upp. Stuttu seinna er amma aftur orðin ófrísk, og þannig var hún að meira eða minna leyti næstu tvo áratugina.

Amma og afi hefja búskap

Þrátt fyrir breytta tíma er ekki erfitt að ímynda sér hvernig þeim var innanbrjósts ungu hjónunum þegar þau eru að koma sér fyrir og hefja búskap. Þá tilfinningu þekkja margir af eigin raun. Sjálfsagt hafa þau verið bjartsýn, hamingjusöm og haft uppi áform um að búa sér notalegt heimili og taka þátt í verkalýðsbaráttunni til að ryðja verkalýðnum braut á leið til betri lífskjara, enda bæði ákaflega pólitísk. Eitthvað sem þau áttu sameiginlegt alla ævi. Liðhlaupinn, verkamaðurinn og hugsjónarmaðurinn og litla kraftmikla og viljasterka dóttir Sæby beykis. Árin á undan hafði verið met síldveiði og sala gengið þokkalega auk þess sem fiskveiðar og vinnsla almennt hafði verið Siglufirði í hag og ekki ástæða til annars en bjartsýni. En hafi þau sett sett sér slík markmið, þá var mun lengra í þau en þau hafa grunað. Og ástæðurnar voru ýmsar, efnahagslegar og sjálfskapaðar.

Út frá efnahagslegur og atvinnulegu tilliti voru árin frá því afi og amma hófu búskap, fram til þess að heimskreppan fer að setja mark sitt með alvarlegum hætti a staði eins og Siglufjörð að mörgu leyti ágæt. Síst verri en á mörgum öðrum stöðum innan lands sem utan, og ætla má að afi og amma hafi haft það þokkalegt á þeim tíma, að minnsta kosti miðað við ástandið i landinu almennt. Á þeim tíma voru launakjör heimamanna á Siglufirði með því besta sem gerðist hjá verkafólki, m.a. vegna vægis Siglufjarðar í útflutningi landsmanna á þeim tíma.

A hinn bóginn er ljóst að rekstur heimilisins þyngdist ár frá ári, og árið 1931, við upphaf kreppuáranna á Siglufirði, eiga afi og amma ellefu börn, öll á lífi og eitt a leiðinni. Og til þess að átta sig á atorkunni við barneignirnar þá ól amma af sér börn árið 1921, '23, '24', '25, '26, '27, '29 og 1930. Stysti tíminn milli tveggja barna voru 11 mánuðir, milli Stínu og Einars. Og ef Einar hefði fæðst einum degi fyrr, ekki 1. janúar heldur 31. desember, hefðu þau Stína fæðst á sama árinu.

Þrjátíu og þriggja ára ólétt ellefu barna útivinnandi húsmóðir í tveggja herbergja íbúð

Á þessum tíma eru þau 12 i heimili og búa í tveggja herbergja kolakynntri íbúð, algerlega laus við munað eins og rafmagn og rétt tæplega með rennandi vatn. Elsta barnið á fermingaraldri og það yngsta tæplega eins árs. En þrátt fyrir margmenni, þrengsli og erfiðar aðstæður endurspeglaði heimilið, þá sem endranær, þann mikla metnað sem amma lagði í snyrtimennsku og þrifnað. Bæði hvað varðar híbýli og fatnað. Og þau voru ekki fá handtökin sem þessi þrifnaður kallaði á, að vísu í litlu rými, en t.d. þvott þar sem úði og grúði saman koldrullugum grútargöllum beint úr slorinu, venjulegum fatnaði, íþróttafatnaði og óstöðvandi runu af skítableyjum af ungabörnum. Alt þvegið i höndunum á þvottabretti í þvottabala. Og fatnaðurinn, hann var ekki keyptur úti i næstu búð, heldur saumaði húsmóðirin föt á alla hersinguna. Hversdagsfót, spariföt, vinnufót, skólafót og jólaföt. Og ef ekki var hægt að kaupa efni voru gamlar flíkur raktar upp og úr þeim saumaðar nýjar. Auðvitað þurfti svo að gefa öllum að borða, jafnvel þegar úr litlu var að moða, vinna almenn heimilisstörf og þrífa börnin og sjálfan sig. Verkefnaskortur var ekki vandámal á því heimili. Þar að auki var amma stóran part ársins, og stundum allt árið, útivinnandi húsmóðir. Á þessum tíma hún aðeins 33 ára gömul ólétt ellefu barna móðir og aðeins rúmlega sextán ár frá því hún hitti norska sjómanninn Einar Færseth.

Þegar við horfum til baka er ótrúlegt að hún amma hafi komist yfir þetta alt og haldið fullum sönsum. Því ofan á alt saman tók afi sig til með sæmilega reglulegu millibili og braut allt og bramlaði á heimilinu í fylleríi og skapofsa, jafnvel þannig að hann kýldi með hnefanum gegnum botninn a pottunum. Líklega náðu skapsbrestir hans og áfengisvandi hámarki þegar Sýslumaðurinn á Siglufirði gaf honum sólahring eftir eina slíka uppákomu til að að koma sér úr bænum fyrir fullt og allt. Þá höfðu synir hans, Óli Jóhann og Edvard þurft að skerast í leikinn og öll fjölskyldan að flýja að heiman. En við þær aðstæður sá amma á hann auman og bað Sýslumann vægðar fyrir hönd afa. Það var síðan upphafið að bata hans í glímunni við eigin þvergirðingshátt, skapsbresti og Bakkus. Og má segja að upp frá þeirri stundu hafi hann verið nokkuð stilltur og þægur, enda mögulega áttað sig á þeim hörmungum sem hann hafði valdið og var að valda með hegðun sinni og framkomu í garð ástvina.

Að sjálfsögðu komu elstu börnin inn i myndina þegar þau voru orðin nægjanlega gömul til að aðstoða og létta undir við heimilisstörfin. Allt skipulag og vinnumáti var hins vegar a ömmu könnu. Sum börnin aðstoðuðu hana líka í vinnunni við síldasöltun. En eitt litið dæmi sýnir vel hversu gífurlegt þrek, andlegt og líkamlegt, þessi manneskja hafði. Það var frægt a sínum tíma á Siglufirði þegar amma gekk með Johanndine Ameliu árið 1927, að hún fékk hríðaverki i miðri síldarvertíðinni, bókstaflega við tunnuna þar sem hún var að salta, gekk heim og eignaðist barnið. Viku seinna var hún komin aftur i vinnu og gaf ekkert eftir. Gaf ekki þumlung eftir í harðri samkeppni um að vera best og fljótust í akkorðinu við síldarsöltunina.

Kreppa og mótlæti

Þetta voru aðstæðurnar á heimili ömmu og afa þegar kreppan hélt innreið sína af miklum þunga, og næstu árin átti enn eftir að harðna á dalnum á öllum sviðum. Amma og afi eignast fleiri börn, en verða líka fyrir tilfinningalegu áfalli þegar þau missa tvö börn með eins árs millibili. Svövu rétt rúmlega þriggja ára sem deyr úr Skarlatsótt í febrúar 1932 og Óskar rétt rúmlega fjögurra mánaða í júlí 1933. Til viðbótar við þungt heimilishald er mikið atvinnuleysi á Siglufirði á þessum árum, og eins og margir aðrir varð afi fyrir barðinu á því. Hann gengur atvinnulaus vetur eftir vetur eða stundar atvinnubótavinnu á vegum ríkisins við að kljúfa grjót. Og hafi hann verið þungur á brún og einþykkur fyrir kreppuna, hljóta þessi ár að hafa lagst enn þyngra á hann. Það hefur ekki verið neitt grín fyrir fullhraustan karlmann með mikið starfsþrek, að þurfa að horfa upp a stóra fjölskyldu, og vera ekki þess megnugur að brauðfæða, hvað þá að uppfylla aðrar óskir og vonir sem verða til i barnshuganum. Og horfa a tækifærin ganga börnunum úr greipum vegna aðstæðna sem hann hafði litið tækifæri til að hafa áhrif á. Aðstæður sem margar barnmargar fjölskyldur þurftu að búa við á Siglufirði, sem og annars staðar á þeim tíma.

Ég held að við sem lifum i alsnægtum samtímans, göngum gleiðbrosandi inn i vöruúrval stórmarkaða og erum stórmóðguð ef ekki eru til nema þrjár tegundir af eplum eða fimm tegundir af kaffi, jafnvel á tímum sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn skilgreina sem kreppu, getum ekki skilið þessar aðstæður. Ég held satt að segja að við gerum okkur litla sem enga grein fyrir þeim veruleika sem amma og afi hrærðust í sem foreldra með stóra fjölskyldu í dýpstu lægð heimskreppunnar. Hvaða áhrif þessir erfiðleikar höfðu a þau, sem bæði voru skapmiklir einstaklingar. Og ofan á allt annað sem amma þurfti að takast á við þurfti hún að glíma við skapofsa og drykkjuvandamál eiginmannsins ásamt öllum þeim drunga sem slíku vandamáli fylgir.

Og hafi Einar afi verið pólitískur og gallharður kommúnisti fyrir þennan tíma er nokkuð öruggt að kreppuárin gerðu hann enn harðari í trúnni. Líklega hafa þau bæði, hann og amma, sem og margir verkamenn á þeim tíma séð rottækasta arm verkalýðshreyfingarinnar sem tæki til þess að byggja betri framtíð fyrir börnin og barnabörnin. Pólitískt tæki til þess að öðlast meiri hlutdeild í þeim auði sem síldin skapaði með þeirra eigin vinnuframlagi beint fyrir framan nefið a þeim. Auðæfi sem spekúlantar fluttu að mestu burt til að skapa sér og sínum meiri alsnægtir og meiri tækifæri og skildu fólkið á Siglufirði efir í fátækt og erfiðleikum. Og hér er rétt að hafa hugfast, að á þeim tíma var hugsjón kommúnismans og sósíalismans í fullu gildi sem hugsjón og raunverulegur pólitískur valkostur. Og Ráðstjórnaríkin sem félagi Lenín hafði ýtt úr vör með Októberbyltingunni 1917 voru raunveruleg fyrirmynd að sæluríki verkamanna. Þá vissi engin það sem við vitum í dag, eða að minnsta kosti fáir.

Pólitískar skoðanir og átök stéttvísra verkamanna

Í dag þegar við komum saman eða hittum annað fólk beinist umræðan gjarnan að ástandinu, hruninu og stjórnmálum. Einhverjir eru sjálfstæðismenn, einn vinstri grænn og annar samfylkingarmaður eða framsóknarmaður. Við þurfum ekki að tala lengi saman til þess að átta okkur a því að við erum næstum því sammála um flest allt. Við þurfum næstum því að leggja okkur í lima til þess að finna einhver ágreiningsefni, jafnvel þá að Icesave og allur ódauninn sem leggur upp af óheiðarleika og græðgi hrunsins sé með í umræðunni. Svo förum við heim og munum ekki einu sinni eftir því í hvaða stjórnmalaflokki maðurinn var sem við vorum að tala við.

Á kreppuárunum var þessu öðruvísi farið og pólitíkin var miskunnarlaus, orðaskipti manna i töluðu og rituðu máli óvægin og markmiðin ekki minni en að bylta þjóðfélaginu. Skapa sæluríki stéttvísra verkamanna. Ekki með pottum, pönnum og sleifum eða öðrum búsáhöldum, heldur vopnuðum átökum og alvöru vopnum. Mismunandi pólitísk afstaða sem í dag gæti sýnst vera pólitískur blæbrigðamunur klauf heilu fjölskyldurnar í herðar niður um lengri eða skemmri tíma.

Á árdögum verkalýðshreyfingarinnar og fram yfir kreppuárin voru háðar margar deilur og átök brutust stundum út í kjölfar verkfalla og deilna víða um land. Ein slík deila var Nóvudeilan og önnur var Borðeyrardeilan, báðar háðar í dýpstu lægð keppunnar. Segja má að Borðeyrardeilunni hafi lokið með Dettifossslagnum á Siglufirði. Án þess að rekja frekar inntak deilunnar í smáatriðum, þá snerist hún um það í sem stystu máli, að róttækir verkamenn sem tilheyrðu kommúnistum vildu koma f veg fyrir uppskipun úr Dettifossi. Alþýðuflokkurinn og sá armur verkalýðshreyfingarinnar sem honum tilheyrðu vildi hins vegar heimila uppskipun. Til þess að sýna mátt sinn skoruðu leiðtogar kommúnista á alla stéttvísa verkamenn að koma niður a höfn og hindra uppskipun. Margir brugðust jákvætt við kallinu, þar a meðal afi, norski sjómaðurinn Einar Færseth.

Það er auðvitað mjög skrítið fyrir okkur í dag að sjá fyrir okkur fjörtíu og fjögurra ára gamlan heimilisfaðir bregðast við slíku kalli með því að setjast niður tálga kylfu til að berja a hvítliðunum, bandamönnum löggæslunnar úr liði íhaldsins. Það var hins vegar ekkert leyndarmal hjá Einari afa. Þegar hann gekk af stað að morgni sunnudagsins 13. maí 1934 hafði hann stungið nýju kylfunni stoltur upp í hægri jakkaermina fyrir framan fjölskylduna, tilbúinn í slaginn og með honum fór Óli Jóhann sonur hans. Miðað við hvað amma var róttæk a sínum efri árum, er nokkuð vist að þennan dag var hún ánægð með hann Einar sinn og eflaust full af stolti að sjá þá feðga arka af stað vopnaða til móts við óvini verkalýðsins. Það er hins vegar ekki svo skrítið að skilja þessi aform þegar við þekkjum aðstæðurnar, kjörin og pólitíska umhverfið.

Það er skemmst frá því að segja að við bryggjuna höfðu hvítliðarnir og löggæslan byggt virki og höfðu með sér brunaslöngu frá slökkviliðinu. Það var ekki að sökum að spyrja að Dettifossslagurinn snerist upp í blóðug átök. Þar grýttu menn grjóti og kolum hver i annan og börðust með kylfum, bareflum að ógleymdri brunaslöngunni. Þetta voru raunverulega átök milli manna í litlu bæjarfélagi úti á landi. Vopnaðir hugmyndafræði Karls Marx og Lein ásamt eigin heimasmíðuðum vopnum.

Í kjölfar deilunnar urðu mikil baðaskrif og mönnum var heitt i hamsi. Í Einherja málgagni framsóknarmanna sagði m.a:

„Ekki er vitað hverjir hafi byrjað grjótkastið af kommúnistum en ætlað er, að fyrst hafi verið byrjað að kasta kolastykkjum og síðan hafi verið gripið til grjótsins. Báðir bæjafulltrúarnir, Gunnar Jóhannsson og Þóroddur Guðmundsson hvöttu menn sína mjög í árásinni, en auk þeirra voru æstastir þeir Einar Færseth, Guðmundur Davíðsson, Þorsteinn Loftsson og Óskar Garibaldason og fleiri og gengu sumir þeirra hart fram í grjótkastinu.

Framkoma kommúnista var öll svo, að ætla mætti að þeir væru brjálaðir eða að þar væri saman kominn argasti og svívirðilegasti skríll stórborganna, morðingjar og aðrir glæpamenn, er engar mannlegar tilfinningar þekkja aðrar en að svala fýsnum sínum og illum hvötum. „

Minna mátti það auðvitað ekki vera og sýnir textinn hversu hitinn og ólgan var mikil milli manna í þessu litla bæjarfélagi.


Í kjölfar deilunnar urðu líka málaferli sem yfirvöld löggæslu- og dómsmala höfðuðu á hendur verkfallsmönnum. Málið endaði i hæstarétti þar sem afi Einar fékk 135 dag óskilbrosbundinn fangelsisdóm og Óli Jóhann 50 daga. Engum af Dettifossdómunum var hins vegar nokkurn tíma fullnægt.

Erfiðleikar og kreppan að baki

Eftir árið 1935, sem var eitt alversta árið í sögu Siglufjarðar atvinnulega séð, bæði vegna kreppunnar og aflabrests, má ætla að gæfuhjólið hafi farið að snúast afa og ömmu i hag. Smám saman fara eldri krakkarnir að vinna fyrir sér og fara að heiman, heimilið verður léttar og á næstu árum verður atvinna mun stöðugri allt árið. Þau flytja úr tveggja herbergja íbúð í ágætt hús við Norðurgötuna sem Óli Jóhann átti stærstan þátt í að kaupa. Næst elsti sonurinn sem var að læra að vera bakari. Sonurinn sem tóka alltaf afstöðu með móður sinni gegn skapofsa föður síns. Sonurinn sem hafði átt þátt í að stilla skapofsa föður síns og jafnvel gengið svo langt að slást við hann ásamt Edvard bróður sínum. Sonurinn sem stóð þétt með móður sinni gegnum alla hennar erfiðleika og átök.

Líklega hefst þeirra besti tími upp úr 1939 til 1940 með þeim uppgangi sem fylgdi i kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Einn hörmulegan skugga bar þó á þegar Óli Jóhann sonur þeirra, þá tæplega 22ja ara gamall útlærður sem bakari fórst með báti a leiðinni milli Siglufjarðar og Sauðárkróks i febrúar 1939. Þangað var hann að fara með þeim ásetningi að setja upp bakarí og flytja á Sauðárkrók og skapa sjálfum sér, móður sinni og allri fjölskyldunni betra líf. En Óli Jóhann var tengdur móður sinni sterkum böndum og vildi allt fyrir hana gera og var stöðugt uppi með hugmyndir um hvernig hann gæti gert líf hennar bærilegra. Og líklega má telja, að þrátt fyrir stórsíga erfiðleika og mótlæti í lífi Ágústu Pálínu Sæby Færseth hafi þetta verið mesta áfall sem hún varð fyrir í lífinu, öl þau ár sem hún lifði.

Um og eftir seinna stríð færist meiri ró yfir heimilið á veturna en á sumrin iðaði allt af lífi þegar síldin setti athafnalífið i gang, og börnin sem voru brottflutt koma norður til þess að vinna yfir sumartímann. Þá var líf í tuskunum svo um munaði, árin sem yngstu börnin, Nína, pabbi minn (Svavar) og Hallgrímur eru krakkar. Þá stendur yfir síldarævintýri eins og það gerðust best, með öllu því fjölbreytilega lífi, margmenni og gáska sem að öðru jöfnu fylgir kraftmiklu athafnalífi. Á þeim tíma iðaði Siglufjörður af uppgangi og lífsgleði. Tími sem allir frá Siglufirði minnast með glampa í augunum.

En þegar árin líða sækja yngri börnin suður á bóginn og fer svo að lokum að afi og amma flytja líka suður. Af öllum þessum barnaskara sest engin að á Siglufirði. Enda er bærinn ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. En afi Einar bjó ekki lengi fyrir sunnan því hann kennir sér meins eftir heimsóknina til Noregs árið 1954 og þarfa að láta undan í glímunni við krabbamein í nóvember árið 1955, þá rétt rúmlega 65 ára gamall. Þá höfðu þau afi og amma aðeins búið saman i 38 ár. Eiginlega í jafn langan tíma og ég sjálfur og Guðrún konan mín höfum verið saman í dag. Það er i raun og veru alveg ótrúlegt miðað við það hversu miklu sambúðin skilaði. Að minnsta kosti i mannafla talið.

Árin hennar ömmu í Keflavík

Amma Pála lifði 24 ár sem ekkja. Fyrst a Vesturgötunni hjá Andrési og siðar a Vatnsnesveginum í Keflavík í íbúð sem Andrés og Hallgrímur lögðu henni til. Þar átti amma gott ævikvöld. Þar bjó hún þegar við barnabörnin, flest að minnsta kosti, kynntumst henni. Gömul kona sem bjó yfir mikilli reisn og stolti og sannarlega hafði skilað miklu ævistarfi. Og að sjálfsögðu var hún oft bitur þó að allir hafi verið duglegir að búa þannig um hnútana að henni liði vel. Má í því sambandi nefna að nafna hennar Pálína dóttir Hallgríms var að mikil leyti alin upp hjá ömmu og var án efa mun tengdari henni en nokkurt af okkur barnabörnunum. Hún var á þessum árum stór ljósgeisli í lífi ömmu. Þá finnst mér að öllum öðru ólöstuðum að Andrés sonur hennar, Lalli frændi, hafi verið einstaklega duglegur að líta eftir velferð móður sinnar. Ég held ég geti fullyrt með nokkurri vissu að hann heimsótti hana nánast daglega á Vatnsnesveginn öll þau ár sem hún bjó þar.

En oftast var hún glöð og naut þess að draga fram lífsgleðina sem hún bjó yfir. Hún hafði sérstaka kímnigáfu sem ég og fleiri fengum að njóta í ríkum mæli, kalda og beitta en ekki óbilgjarna. Hún hafði gaman af að draga sannleikan fram með sinni sérstöku kaldhæðni. Og sjálfur held ég, að ef einhver tæki að sér að skrá sögu ættarinnar, hversu langt aftur eða hversu langt fram yrði farið, yrði amma Pála óhjákvæmilega hetja sögunnar. Hins vegar var ævi hennar ekki efniviður i draum, og líklega eru þær fáar unglingsstúlkurnar í dag sem dreymir um að verða 14 barna mæður á Siglufirði og búa við kröpp kjör stóran hluta ævinnar. En þegar upp var staðið er ég ekki viss um að amma Pála myndi velja sér annað hlutskipti. Hún átti sitt líf og viss vel að fyrir það þurfti hún aldrei að blygðast sín. Þvert á móti gat hún verið stolt yfir öllu sem hún gerði. Hún var heiðarleg og harðdugleg alþýðukona sem gaf börnum sínum gott uppeldi þrátt fyrir erfiðar aðstæður og bágborinn efnahag. Hún var góð eiginkona þrátt fyrir að vera gift manni sem átti við erfiða skapsmuni að etja og vandamál tengd áfengi. Góð eiginkona sem gat hjálpað honum að átta sig í tíma með hjálp barnanna sinna. Hún átti mikla auðlegð sem hún geymdi í hjartanu. Auðlegð sem hún gat dregið fram og glaðst yfir með sjálfri sér og minningar sem hún gat tárast yfir.

Í samskiptum mínum við ömmu langar mig að minnast tveggja atvika sem áttu sér stað þegar ég var krakki og unglingur. Fyrra atvikið var þegar ég kom heim til ömmu, líklega 10 -12 ára. Þá bjó hún á Vatnsnesveginum. Ég man ekki alveg hvaða tíma dags það var en líklega hefur þetta verið einhvern tíma eftir hádegi. Flest bendir til þess að ég hafi verið svangur og amma spurt hvort ég vildi ekki borða. Siða gaf hún mer fullan disk af köldum grjónagraut með blóðmör og lifrapylsu. Öllu hrært saman með mjólk og kanilsykri. Eflaust hef ég tekið hraustlega til matar eins og mér var gjarnt á þessum árum og man ég vel eftir þeim gleðiglampa sem skein út úr svip og augnaráði ömmu. Og meira að segja minntist hún sjálf a þetta atvik við mig siðar, oftar en einu sinni, með nokkru stolti. Það var nefnilega þrátt fyrir allt fátt sem gladdi ömmu meira en að sjá barn fá magafylli. Þannig sátu erfiðleikar kreppuáranna í henni alla ævi. Margoft hafði hún upplifað sem ung móðir að sjá varla fram á að geta brauðfætt börnin sín. Í hennar huga var skortur ekki hugtak heldur raunverulegt ástand sem hafði plagað hana þegar hún var ung móðir margra barna.

Hitt atvikið átti sér stað þegar ég var aðeins eldri og tók þátt í pólitísku starfi á vinstri væng stjórnmálanna. Þá bað amma mig sérstaklega að fara með sig í kosningarkaffi hjá Alþýðubandalaginu. Það var eðlilega auðsótt og þegar ég koma að sækja hana var hún búin að klæða sig upp í sitt allra besta skart. Þegar við komum í kosningakaffið hjá Alþýðubandalaginu í Keflavík var augljóst að hún var á heimavelli og allir heilsuðu henni með virktum. Hún var með sínu fólki og í hennar augum var þetta hátíðisdagur. Hún var í kosningarkaffi hjá flokknum sínum, flokki sem átti rætur í þeirri verkalýðsbaráttu sem hún og afi höfðu greinilega alla tíð verið sammála um. Flokki sem gat rakið rætur sínar til gamla Kommúnistaflokksins og þeirra hugsjóna sem börðu á íhaldinu í Dettifossslagnum. Ég skynjaði að hún var ánægð að barnabarnið hennar væri einmitt að vinna fyrir Alþýðubandalagið en þegar á leið heimsóknina áttaði ég mig á því að ég var mun stoltari yfir að eiga hana sem ömmu, sem ég var þó alla tíð bæði fyrr og síðar. Þetta er minning sem ég get flokkað sem djásn.

Árangur af erfiðu ævistarfi

En hverju skilaði svo ævistarf þessara hjóna, Einars afa og Ömmu Pálu. Þau skiluðu okkur til samfélagsins. Þau gáfu okkur góð gen, góða heilsu, dugnað, heiðarleika og ýmsa eðlisþætti sem mölur og ryð fá ekki grandað, og vonandi berum við gæfu til að viðhalda þeirri gjöf. Þau voru mjög pólitísk og róttæk og höfðu það pólitíska markmið að búa afkomendum sinum betra þjóðfélag. Pólitísk markmið sem höfðu samfélagslegan undirtón þar sem samhjálp var þungamiðjan. Betra þjóðfélag en þau sjálf höfðu þurft að búða við.

Hvort kolamolinn sem afi henti hugsanlega í hausinn á einhverjum hvítliða i Dettifossslagnum hafi skilað svo miklu skal ósagt látið, en tvímælalaust skilaði róttækt starf verkamanna af báðum kynjum á árdögum verkalýðshreyfingarinnar til okkar meiru en við sjáum i fljótu bragði. Að minnsta kosti bíum við í góðu lýðræðislegu þjóðfélagi við góð skilyrði. Vissulega lögðu þau sitt af mörkum. Þau skiluðu okkur til samfélagsins og lögðu sitt af mörkum til að skila okkur góðu og réttlátu þjóðfélagi. Þjóðfélagi sem ef til vill á enn langt í land að verða fyrirmyndaríki verkamannsins, en þjóðfélagi sem græðgi og spillingu efnahagshrunsins tókst ekki að eyðileggja. En hvað sem öðru líður lifðu þau amma og afi ramma og djúpa kreppu með stóra fjölskyldu og komust í gegnum hana með útsjónarsemi og dugnaði. Líklega útsjónarsemi og dugnaði ömmu.

Einar Páll Svavarsson