Skip to Content

Í boltann fyrir hreina tilviljun

Hún Olga okkar Færseth er ein fremsta boltakona landsins fyrr og síðar. Hún er markadrottning í fótboltanum og stigadrottning í körfuboltanum þar sem enginn hefur náð að slá út átján ára gamalt stigamet hennar. Hún hefur nú lagt boltaskóna á hilluna og nýtur lífsins með sambýliskonu sinni og litlu dóttur

Ég byrjaði í fótbolta í Keflavík. Þegar ég mætti á mína fyrstu æfingu var ég sjö ára. Þá voru stelpuflokkarnir að byrja í skólanum og það var bekkjarfélagi sem vildi endilega að ég kíkti með á æfingu. Mér líkaði rosalega vel. Það varð bara önnur æfing og þriðja æfingin og hef ég ekki stoppað síðan, segir Olga, eða Andrea Olga Færseth. Hún fæddist í Keflavík 6. Október 1975, dóttir hjónanna Hallgríms Færseth og Jónu Benónýsdóttur. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og Olga heldur betur markað sín spor í íslenska íþróttasögu. Til dæmis setti hún stigamet í körfuboltanum þegar Keflvíkingar urðu Íslandsmeistarar 1994, skorði 111 stig í úrslitaeinvíginu – en það met hefur enn ekki verið slegið átján árum síðar. Í knattspyrnunni er hún langmarkahæsta kvennaknattspyrnukona landsins, skoraði 262 mörk í 202 leikjum í efstu deild . Þær sem koma næst á eftir henni eru með 154 mörk – og hættar að spila, þannig að það er ekki útlit fyrir að metið hennar Olgu verði slegið í bráð.

Ég stökk bara hærra

Það er ekki laust við að maður hvái þegar Olga talar um körfuboltann. Hversu líklegt er það að telpuhnáta sem er ekki nema 1.60 metrar á hæð sé stigahæsta körfuboltakona landsins í úrslitakeppninni frá upphafi? Körfubolti er örugglega ekki íþróttagrein sem neinn hefði veðjað á fyrir Olgu.

„Ég hef oft fengið slíkar spurningar,“ segir Olga. „Ég hef bara svarað því þannig að ég hafi bara stokkið hærra en hinar og þar með jafnað út hæðina.“

Sem fyrr segir æfði Olga fótbolta frá sjö ára aldri en var orðin fimmtán ára þegar hún byrjaði í körfunni og segir það hafa verið eins og með fótboltann, karfan hafi bara smollið inn hjá henni. Þetta var árið 1990 og ári seinna var hún kominn í meistarflokk þar sem hún varð Íslandsmeistari 1991, 1992, 1993 og 1994. Árið 1995 skipti hún síðan yfir í Breiðablik. En það var ekki þar með sagt að Olga hefði sagt skilið við fótboltann eða tekið sér frí frá honum.

„Á þessum tíma, eftir að ég byrjaði í körfunni, spilaði ég líka með Keflavík í fótboltanum, segir hún, „auk þess sem ég var í landsliðinu í fótbolta og í körfubolta. Enda var ég alltaf á æfingum. Lífið var bara bara skóli, heim að borða og síðan út í íþróttahús og komið heim á milli 10 og 11 á kvöldin. Námið fékk að mæta afgangi, þótt ég hafi klárað stúdentinn – og önnur áhugamál komust ekki fyrir á þessum tíma.“

Eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Keflavík í körfunni í fjögur ár, skipti Olga yfir í Breiðablik og það var eins og við manninn mælt, strax fyrsta árið urðu Breiðabliksstelpurnar Íslandsmeistarar. Þegar Olga er spurð hvers vegna hún hafi flutt sig yfir í Breiðablik, segir hún: „Ég spilaði bara í eitt ár með meistarflokki í Keflavík í fótboltanum, eða 1991. Ég spilaði hins vegar fótbolta með Breiðablik 1992, 1993 og 1994 og bjó hjá Pálu systur minni í Hafnarfirði, þannig að það má segja að ég hafi verið flutt. Ég var í Keflavík á veturna í körfunni og í Kópavogi á sumrinn í fótboltanum og þetta var mikill þeytingur. Ég keypti mér að vísu litla skellinöðru sem ég var með á sumrin í bænum til að létta á Pálu systur. Það var alveg ófært að hún væri alltaf að skutla mér á æfingar og sækja mig.“

Bryggjan og heiðin

Þegar Olga er spurð hvort hún hafi aldrei haft nein önnur áhugamál en íþróttir, segir hún að það hafi býsna mikill tími farið í íþróttir. „Sem barn bardúsaði ég samt heilmikið annað. Það var alveg ævntýri að alast upp í Keflavík þar sem hægt var að fara upp á heiðina að klifra í trönunum. Svo var líka verið mikið niðri á höfn að veiða, þótt þar fengjust aðeins marhnútur og koli. En maður fleygði bara marhnútunum og notaði kolann í beitu. Mér fannst alveg dásamlegt að taka bara veiðistöngina og hjóla niður á bryggju...

Hér lítur Olga á dóttur sína, Melkorku Öldu og bætir við: „Mér er sem ég sæi mig í anda taka í mál að leyfa barninu mínu að vera að þvælast niðri á bryggju í dag – en þetta þótti ekkert tiltökumál.“

Olga var líka stundum á sumrin í Vestmannaeyjum hjá Binna, elsta bróður sínum og segir það átt rosalega vel við sig. „Þar voru krakkarnir bara komnir út eldsnemma á morgnana og sáust varla heima hjá sér fyrr en seint á kvöldin. Það var verið að leika sér niðri á bryggju, spranga í klettunum og spila fótbolta fram eftir öllum kvöldum. Það var stanslaus „aksjón“ allan daginn, alla daga.“

Slitið liðband batt enda á körfuboltaferilinn

Sextán ára gömul hættir Olga að spila fótbolta með Keflavík og flutti sig yfir í Breiðablik, en hvers vegna?

„Það sem gerist þarna var að það var verið að endurvekja kvennaknattspyrnuna í Keflavík. Mér gekk alveg ótrúlega vel og var með að meðaltali 7 komma eitthvað mörk per leik; þetta var eins og handboltatölur. Það skipti ekki togum að liðin í efstu deild byrjuðu að hringja til að fá mig til liðs við sig og mér fannst það mjög freistandi. Eftir leiktímabilið sátum við í Keflavíkurliðinu eftir í 2. deild þar sem aðeins eitt lið fór upp um deild en mig langaði til að spila í úrvalsdeildinni. Ég sá að ég hafði alveg getu til þess. Það varð því úr að ég fór í Breiðablik sem varð Íslandsmeistari þetta ár – og þegar maður er kominn í besta lið á Íslandi, verður ekki aftur snúið, ekki einu sinni þótt mér hafi alltaf þótt jafn vænt um Keflavík.“

Veturinn 1995 var síðasta tímabilið sem Olga spilaði körfubolta. Enn hafði hún félagaskipti og gekk til liðs við KR sem hún byrjaði að spila með 1996. „Það var alltaf planið að halda líka áfram í körfunni,“ segir hún, „ en þetta sumar sleit ég krossband. Það var ljóst að álagið hefði verið of mikið. Það var of mikið að æfa spila með félagsliði í körfu og fótbolta – auk þess að spila með landsliðinu í báðum greinum. Auðvitað varð eitthvað að láta undan og ég varð að velja á milli körfuboltans og fótboltans.“

Það segir sig sjálft að valið var Olgu ekki auðvelt. „Ég þurfti að hugsa mig um í dálítið langan tíma,“ segir hún, „en á þessum tíma var meiri uppgangur í fótboltanum. KSÍ stóð líka miklu betur við bakið á sínum liðsmönnum í sambandi við keppnisferðir til útlanda en KKÍ. Ég man eftir því þegar við vorum að fara út í keppnisferðir með landsliðinu í körfu, að þá vorum við eins og þeytispjöld um allt að selja klósettpappír og allt mögulegt til að fjármagna ferðirnar.

Á endanum valdi ég fótboltann og hef aldrei séð eftir því. Mér fannst reyndar alltaf meira gaman í körfunni en í fótboltanum, þótt ég geti alls ekki haldið því fram að mér hafi þótt leiðinlegt í fótboltanum. Ég var einfaldlega betri í körfu en fótbolta. Samt hef ég aldrei séð eftir þessari ákvörðun, ekki eina mínútu. Það má því segja að körfuboltaferillinn minn hafi verið stuttur en mjög ákafur og skemmtilegur.“

Markadrottningin

Olga lék knattspyrnu með KR frá 1995 til 2001 og var þar sannkölluð markadrottning, skoraði 161 mark í 118 leikjum – en þá var aftur komið að tímamótum. Sumarið 2002 var flutt til Vestmannaeyja og leikið með ÍBV næstu þrjú árin. En hvað kom til?

„Mig vantaði nýja áskorun. Það sem ég geri þarna er það sama sem ég gerði þegar ég skipti úr Breiðabliki yfir í KR. Ég fór úr liði sem er Íslandsmeistari yfir í lið sem gat ekkert sérlega mikið. Ég var búin að vinna allt sem mig langaði til að vinna með KR og mig vantaði einhverja nýja áskorun. Ég er ættuð úr Eyjum og vissi að mér myndi líka mjög vel þarna. Pálína, sambýliskona mín, var að ljúka námi í iðnrekstrarfræði og var að svipast eftir vinnu. Þetta var rétti tíminn til að breyta til og þarna áttum við alveg dásamleg þrjú ár. Liðið hafði verið í uppbyggingu í nokkur ár en það hafði alltaf vantað herslumuninn hjá þeim – og það er svo merkilegt að það er svo lítið um félagaskipti í kvennaliðunum. Íslenskar fótboltakonur hafa ekki verið neitt sérlega viljugar til að skil að skipta um lið í gegnum árin. Við Pálína slógum hins vegar til og áttum frábær ár.“

Skórnir á hilluna

Enn var komið að breytingum hjá Olgu sem sneri aftur til KR og lék með þeim 2005, 2006, 2007 og 2008. Þá voru boltaskórnir lagðir á hilluna.

Hvers vegna?

„Það er eiginlega ekkert eitt svar við þessu,“ segir Olga. Mig langaði einfaldlega til að gera eitthvað annað í lífinu en að sparka bolta. Ég var ekkert orðin leið en mig langaði til að gera eitthvað annað. Við Pálína keyptum húsið okkar í Háaberginu í Hafnarfirði í febrúar 2008. Það var mikið þar sem var óklárað og við réðumst í að koma því í stand. Á þeim tíma fann ég að það var kominn tími til að snúa sér að öðrum verkefnum. Við unnum af fullum krafti í húsinu í heilan mánuð bara til að geta flutt inn og ég sagði aldrei beinlínis að ég ætlaði að hætta í fótboltanum. Þegar grasið fór að grænka var stöðugt verið að hringja í mig til að boða mig á æfingar og rétt fyrir Íslandsmót ákvað ég að drífa mig á eina æfingu – og sjá svo til. Ég var hálft sumarið að koma mér í stand en við urðum bikarmeistarar þetta ár. Þá fannst mér þetta orðið gott.

Þegar Olga er spurð hvort hana hafi aldrei langað til útlanda að spila, segir hún: „Nei, í rauninni ekki. Á þessum tíma var ekkert sérstakt í boði eins og núna. Ég fór samt til Bandaríkjanna í háskólaboltann í einn vetur og var ein af þeim fyrstu sem fóru héðan. Þetta var mjög gott lið, tvær landsliðsstelpur frá Hollandi og tvær frá Svíþjóð og við tvær frá Íslandi. Fótboltalega var þetta mjög skemmtilegt en námslega leiddist mér. Ég ætlaði aldrei að vera nema einn vetur – veturinn 95-96, mig langaði bara að breyta til og prófa en það var gott að koma heim aftur. Ég fór líka einhvern tímann til Danmerkur í reynslu. Ég var þar í fimm eða sex daga og fann að þetta var ekkert sem ég var að sækjast eftir. Mig langaði ekki til að vera í burtu frá fjölskyldu og vinum. Þetta átti ekki við mig, að mæta á æfingar og leiki og vera svo ein einhvers staðar. Þetta var ekki nógu mikil aksjón fyrir mig.“

Kann vel við sig innan um skruddurnar

Þótt íþróttaiðkunin virðist alveg hafa verið kappnóg, hefur Olga alltaf unnið með henni. Byrjaði strax sem krakki að vinna sér inn vasapening með því að ryksuga búðina hjá Óskari bróður sínum og svo síðar við afgreiðslu. Eftir að námi lauk hefur Olga alla tíð verið í hundrað prósent starfi, jafnvel meira. Sem unglingur vann hún á sumrin á leikjanámskeiðum hjá Breiðabliki og 1997 hóf hún störf hjá bókaútgáfunni Vöku/Helgafelli. Hún var að ljúka stúdentsprófi, eftir að hafa tekið sér frí frá námi í tvö ár – og það má segja að hún sé enn í sama starfinu í dag.

„Árið 2000 sameinaðist Vaka Helgafell Máli og menningu og úr varð fyrirtæki sem hét Dreifingarmiðstöðin sem sá um hýsingu á bókunum þeirra. Árið 2009 ákveður Forlagið að opna sinn eigin lager og má segja að ég hafi fylgt með í kaupunum og núna vinn ég á lagernum hjá Forlaginu niðri á Fiskislóð og líkar gríðarlega vel. Ég er búin að vinna við þessar skruddur í yfir fimmtán ár, kann þetta út og inn – og þetta á mjög vel við mig. Ég gæti aldrei unnið við eitthvað þar sem ég þyrfti að sitja fyrir framan tölvu allan daginn. Ég verð að vinna líkamlega vinnu, vera á hreyfingu...“

Hamingjusöm í Hafnarfirðinum

Olga segist vera mjög háð fjölskyldu og vinum og af þeirri einu ástæðu hefði hún aldrei getað hugsað sér að spila erlendis. „Ástæðan fyrir því að við Pálína fluttum hingað í Hafnarfjörð var sú að systur mínar, Pála og Kata búa báðar hér. Við vildum vera nærri þeim – og þetta er alveg æðislegt núna, eftir að við eignuðumst Melkorku, alltaf hægt að kíkja og alltaf hægt að fá pössun.Við bjuggum áður úti í Skerjafirði og höfðum oft á orði að við hefðum hitt Pálu og Kötu oftar þegar við bjuggum í Eyjum. Þá komum við í æfinga- og keppnisferðir í bæinn og gistum hjá Pálu sem sá algerlega um okkur, tók búningana okkar, þvoði og braut þá saman og var alltaf með kvöldmat fyrir okkur. Foreldrar Pálínu búa á Húsavík og hún á einn bróðir á Akureyri, þannig að við höfum orðið mjög nánar systrum mínum. En amma og afi á Húsavík eru líka mjög dugleg að koma suður og við förum norður eins oft og við getum komið því við.“

Það virðist oft liggja beinast við að snúa sér að þjálfun þegar fótboltaskórnir eru lagðir á hilluna, en Olga segist ekki hafa áhuga á því eins og er.

„Þá er ég bara komin aftur inn í þessa æfingarútínu, kæmi heim í hálftíma eftir vinnu, færi þá út og kæmi ekki aftur fyrr en eftir að Melkorka er sofnuð. Mér finnst þetta of dýrmætur tími með Melkorku og Pálínu. Ég kem heim úr vinnu og get farið út í garð eða bardúsað eitthvað með þeim. Pálína er í fullu starfi í áhættustýringu hjá MP banka og okkur finnst alveg nóg að vinna hundrað prósent vinnu. Mér finnst þetta bara æði.

Ég hef gefið boltanum allt mitt í 30 ár en það er einfaldlega kominn nýr kafli í lífinu. Aðal atriðið er að vera sátt – og það er ég.

Súsanna Svavarsdóttir