Skip to Content

Ættarmótasaga Færsethfjölskyldunnar

Fyrir nokkrum vikum var mér falið það verkefni að skrifa um ættarmót okkar Færsethanna. Strax fór ég að hugsa og velta fyrir mér ættarmótunum okkar, sem ekki hafa verið mörg, svona skipulögð ættarmót.  Auðvitað höfum við komið saman, ég man alveg allar fermingarnar sem öllum var boðið í, svona yfir 100 manns samankomnir í litum íbúðum. Í seinni tíð hafa jarðafarirnar tekið yfir með erfidrykkjum og það var einmitt í einni síðustu jarðaförinni sem við hittumst saman, að ættingum fannst tími til kominn að hittast að nýju, á ættarmóti. Það má alveg koma fram hérna, að þessi ósk ættingjanna kom, þegar hún Tóta okkar var jörðuð og mannskapurinn fór að tala saman í erfidrykkjunni á eftir. Skyldi hún hafa haft áhrif á hugi okkar, sem þarna voru.

Fjölskyldan hittist til skrafs og ráðagerða sumarið 2011.

Við erum Færsethfjölskyldan

Hvers vegna við, þetta líka skemmtilega fólk, hittumst ekki oftar er mér hulin ráðgáta, því í þessi fáu skipti sem við höfum komið saman á ættarmótum, þá hefur verið einstaklega gaman. Ekki getur það verið af lítillátsemi, við sem erum fædd með þeim ótrúlega eiginleka að hika ekki við neitt og ekki skortir okkur sjálfstraustið. Kannski er það, að okkur finnst við ekki vera ætt, þá meina ég svona fín ætt sem er í bókum. Ekki erum við í neinum bókum nema ef ske kynni, að við höfum slæðst inn bakdyrameginn, að því að makar okkar eru í svoleiðis ætt og kanski tveimur slíkum. Hvað um það, nú erum við orðin ætt og það stór ætt, afkomendur Afa og Ömmu.

Við Færsetharnir höfum komið saman þrisvar sinnum á ættarmótum, fyrir utan fermingar og jarðafarir og svo er það fjórða á teikniborðinu og verður þann 29. júní – 1. júlí 2012

Ættarmótið í október árið 1991

Fyrsta ættarmótið var 27. október 1991 sem haldið var í Safnaðarheimilinu í Garðabæ. Á þessu ættarmóti vorum við samankomin yfir eitthundrað ættingjar. Þetta ættarmót var síðdegiskaffi og átti nú að vera svona undanfari að enn stærra og veiga meira ættarmóti. Það tók okkur heil 6 ár að skipuleggja næsta ættarmót. Á þessu ættarmóti flutti Einar Páll annál „Óðurinn til afa og ömmu“. Þessi annáll er grunnurinn að sögunni af ömmu og afa á heimasíðunni okkar.

Venni, Nína, Tóta, Jóendína, Dæsi, Stína, Ella, Einar og Halli á ættarmótinu í Garðabæ árið 1991.

Ættarmótið í júní árið 1997

Næsta ættarmót, það er að segja heilum 6 árum seinna var haldið 27. – 29. júní 1997 á Hóli í Siglufirði.  Á þessu ættarmóti var fjör á Hóli, þarna vorum við saman komin hátt í 150 ættingjar með mökum, sem minnstust afa og ömmu. Ef amma Pála hefði lifað, þá hefði hún orið 100 ára þann 6. ágúst. Það sem einkenndi þetta ættarmót var samheldni og samstaða, allir voru tilbúnir að taka þátt. Flest allir komu á föstudeginum og var hópurinn að hristast saman „bara svona smá“ á föstudagskvöldinu. Á laugardeginum fórum við í gönguferð um Siglufjörð og þar sögðu þau systkinin sem voru með (Ella, Tóta, Stína, Andrés, Dæsi, Halli og Nína) okkur sögur frá þeim tíma, þegar þau voru að alast upp þarna á Eyrinni. Af Eyrinni var haldið upp í kirkjugarð og látnir ættingjar heimsóttir með tilheyrandi sögum hjá þeim systkinum. Gönguferðin endaði svo á Síldarminjasafninu, þar hafði hann Örlygur safnvörður komið fyrir munum sem tilheyrðu bæði afa Einari og langafa Sæby og auðvitað var sérstök sýning „Síldarsöltun“ fyrir okkur. Um kvöldið voru grillin dregin fram og þar hjálpuðust allir að. Strákarnir grilluðu, við stelpurnar lögðum á borð og gerðum sósu og svoleiðis. Já, já alveg hefðbundin kynjaskipting og hún jók bara á gleðina og ánægjuna, að vera með. Eftir matinn var farið í leiki, þar voru ungir sem aldnir þátttakendur. Á sunnudeginum áður en ættarmótinu var slitið var ákveðið að haldið skyldi ættarmót að fimm árum liðnum. Núna eru 15 ár liðin síðan þá.

Halli, Lalli, Tóta, Stína, Ella og Dæsi á ættarmótinu á Siglufirði í lok júní árið 1997

Ættarmótið í sumar í júní 2012.

Eins og áður hefur komið fram var ákveðið að flauta til ættarmóts í febrúar 2011, þegar hún Tóta var jörðuð. Okkur, Gulla, Sólrúnu, Pálu, Einari Páli, Björgu, Kötu, Lilju og mér (Sóleyju) var demt í nefnd og var ekki möguleiki að skorast undan. Fleiri hafa bæst í hópinn, þeir Jóhann, Steini og Haukur. Ættarmót skyldi haldið stax um sumarið. Nefndinn hóf störf. Fyrsta verk nefndarinnar var að leita að aðstöðu fyrir ættarmótið, en við vorum of sein, ekki fannst neinn góður staður fyrir okkur, því var ákveðið að seinka ættarmótinu um eitt ár, en þess í stað skyldum við koma saman og hita upp fyrir sjálft ættarmótið þann 29. júní – 1. júlí 2012.  Þann 29. maí 2011 komum við saman hátt í 100 ættingjar í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Þar sannaðist enn og aftur að við erum samstilltur og samheldin hópur. Þarna slógum við upp saman, veislu fyrir okkur sjálf, allir komu með sitt meðlæti og settu á borð. Nú er bara að bíða og láta sig ekki vanta, á fjórða ættarmótið okkar þann 29. júní – 1. júlí n.k.


Sóley Björg Færseth